Mávafælum komið upp við Akraneshöfn, frétt af skessuhorn.is
Skessuhorn.is birti eftirfarandi frétt á vef sínum 20. janúar 2015:
Faxaflóahafnir hafa fest kaup á fuglavarnabúnaði fyrir Akraneshöfn. Um síðustu helgi var unnið að uppsetningu búnaðarins við löndunarbryggjuna á Akranesi. Tækinu er ætlað að halda mávum frá við löndun og í kringum Fiskmarkaðinn. Mikið ónæði og óþrifnaður getur verið frá mávum allt árið um kring við bryggjur þar sem löndun fer fram og unnið er með ferskar sjávarafurðir. Auknar kröfur um gæði og hreinlæti kalla því á lausnir sem þessar.
Búnaður þessi er frá fyrirtækinu Fuglavörnum.is og byggir á hljóðtækni. Hann er alsjálfvirkur og sendir frá sér aðvörunarhljóð tiltekinna valinna fuglategunda með óreglulegu millibili. Blekkir það fuglinn sem telur aðsteðjandi hættu steðja að og heldur sig því fjarri. Búnaður sem þessi er vistvænn og mannúðlegur og hefur reynst vel bæði við hafnir og fiskvinnslur víða um land og einnig í landbúnaði gegn ágangi álfta, gæsa, stara og annarra fuglategunda.
http://skessuhorn.is/frettir/nr/192851/